Eru stjórnmálaflokkar forsenda lýðræðis?

Sennilega er flestum tamt, að gera lítinn ef þá nokkurn greinarmun á lýðræði og stjórnmálaflokkum.  En er það endilega rétt?  Það eru a.m.k. tvær hliðar á því máli sem öðrum.  Önnur er sú, að vissulega geta stjórnmálaflokkar verið vettvangur lýðræðislegra umræðna, þar sem hægt er að þoka góðum málum fram rétta braut.  Hin hliðin er því miður sú, að þetta er alla jafna ekki gert, og síst af öllu, ef viðkomandi stjórnmálaflokkur er í ríkisstjórn.  Þá þykir það dónaskapur og vantraust á viðkomandi ráðherra, að stuða að framgangi mála. Tökum dæmi; félagi í flokki samgönguráðherra hefur brennandi áhuga á vegagerð, t.d. á Vestfjörðum, og vill flytja um það tillögu á landsfundi, þá er honum kurteislega bent á það af félögum sínum að þarna sé um að ræða „málaflokk ráðherra flokksins". Tillagan  verður því aldrei flutt.  Þess vegna eru flokkssamkomur í raun innantómar skrautsýningar, þar sem leiðtogarnir baða sig í „frægðarljóma".  Auðvitað eru til undantekningar frá þessu.  En til að finna þær, verðum við að leita til dauðvona flokka, eins og t.d. Framsóknarflokksins.

Sæu menn það ekki fyrir sér, hvað mundi gerast á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, ef lögð yrði fram tillaga um rannsókn á sölu ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins og fyrrverandi starfsmanns Sjálfstæðisflokksins á sölu hans á hlutabréfum í Landsbankanum, nokkrum dögum áður en bankinn fór á hausinn?  Eða hvernig skyldi því verða tekið í flokknum, ef krafist yrði rannsóknar á því, hvort Kjartan Gunnarsson þáverandi framkvæmdastjóri flokksins og varaformaður bankaráðs Landsbankans, hafi reynt að fá bankastjórann, til að fella lán á Styrmi Gunnarsson ritstjóra Moggans, vegna þess, að skrif hans í blaðið væri flokknum ekki þóknanleg?

Enda þótt Framsóknarflokkurinn sé ekki burðugur, þykist ég vita, að hann mundi standa dyggan vörð um menn eins og Halldór Ásgrímsson og Finn Ingólfsson, ef einhver mistjórnarmeðlimur flokksins gerði það að tillögu sinni, að farið yrði í saumana á fjármálavafstri þessara manna og því, hvernig það tengist pólitískum ítökum þeirra og völdum.

Ég er heldur ekki viss um, að því yrði tekið með húrrahrópum innan Samfylkingar og Vinstri grænna ef lagt yrði til, að könnuð yrði starfsemi verkalýðsleiðtoga, sem eru í þessum flokkum, innan lífeyrissjóðakerfisins og samkrull þeirra við atvinnurekendur þar.  Og skyldi Ingibjörg Sólrún ekki hafa einhver ráð til að kæfa umræðu innan flokksins um þá furðulegu embættisveitingu, að gera skrifstofustýru í utanríkisráðuneytinu að sendiherra, án þess að senda hana svo mikið sem út í búð, hvað þá heldur til annarra landa.

Ég er ekki að hald aþví fram, að stjórnmálaflokkar þurfi endilega að vera af hinu illa.  En eins og sakir standa eru þeir allir spilltir og auðvitað þeim mun spilltari, eftir því, sem völd þeirra eru meiri og hafa varað lengur.  Þess vegna leitar allur þorri almennings, sem á annað borð tekur þátt í stjórnmálum, annað með baráttumál sín, t.d. niður á Austurvöll, jafnvel í brunagaddi, vilji ekki betur til.

Öllum er ljóst, að stærð yfirstandi kreppu á Íslandi er heimatilbúin. Kreppan er alþjóðleg, en hún er hvergi jafn geigvænleg og hér. Hér verða engar framfarir, fyrr en erlendir sérfræðingar, bæði á sviði stjórnmála, efnahagsmála og síðast en ekki síst á sviði afbrotamála, hafa rannsakað þetta furðulega samfélag, sem við búum í og birt alþjóð, já og reyndar alheimi, niðurstöður sínar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ragnar Björnsson

Nokkuð til í þessu.

Við eigum þó ekki að leggja niður stjórnmálaflokka eða vera að stofna marga nýja. Það eykur aðeins glundroðann.

Við þurfum hins vegar að hreinsa til í flokkakerfinu, endurbyggja það og fá:

NÝTT FÓLK Í FLOKKANA

Jón Ragnar Björnsson, 30.11.2008 kl. 22:01

2 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Við ÞURFUM ekki aðeins að gera þetta, við VERÐUM að gera það. Ég man ekki betur en fulltrúar flokkanna sem komu til fundarins í Háskólabíói fyrir viku segðu já við þeirri spurningu sem kom úr salnum hvort þeir væru tilbúnir að opna flokkana þannig að fleiri en gæfir flokkshestar ættu möguleika á að komast á lista. Þeir voru líka spurðir hvort þeir væru tilbúnir að leggja ALLT á borðið og sögðu allir JÁ við því. En hvað er þetta ALLT og hvenær kemur það upp á borðið? Fjölmiðlar verða að herða upp hugann og ganga hart eftir þessu og svörum við ýmsum öðrum spurningum!

Þorgrímur Gestsson, 30.11.2008 kl. 23:05

3 identicon

Þarna hefur þú lög að mæla.

Stjórnmálaflokkar eru í allt of mörgum tilvikum skálkaskjól og þeir koma allt of mörgum vanhæfum aðilum í sæti.

Látum einstaklinga bjóða sig fram og standa fyrir sínum málefnum. Það er mun betra auk þess sem samtryggingar vandamálið verður auðsjáanlegra.

bogi (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 11:51

4 identicon

Ég held að uppruni stjórnmálaflokka hafi verið í því að fólk fylkti sér saman í hópa eftir lífsskoðunum sínum og áherslum. Flokkarnir ættu samkvæmt því aðeins að vera samstarfsvettvangar fólks með líkar skoðanir og leiðtogar þeirra ættu að sækja vald sitt og umboð til flokksmanna í grasrótinni. Raunveruleikinn er því miður sá að þessu er öfugt farið, flokkunum er stjórnað af klíkum sem leggja línurnar og almennir flokksmenn fjúka með eins og lauf í vindi, ef þeir hafa aðra skoðun en flokksforustan þá sitja þeir yfirleitt á henni til að verða sér ekki til skammar innan flokksins. Flokkurinn sjálfur og velferð hans er í forgangi og það gleymist að flokkarnir eiga að starfa í þágu almennings en ekki öfugt. Semsagt, þegar stjórnmálaflokkur hættir að vera einfalt tól til að ná fram tilteknum pólítískum markmiðum og verður að stofnun sem hefur það eina markmið að viðhalda sjálfum sér og halda völdum þá er kominn tími til að leggja flokkinn niður.

Bjarki (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 14:11

5 identicon

Áhugaverð spurning Pjetur Hafstein. Að mínu mati eru stjórnmálaflokkar ein aðalforsenda fulltrúalýðræðis. Það er svo annað mál hvort raunverulegt lýðræði sé ekki æskilegra en gamla fulltrúalýðræðið sem gefur fólkinu náðarsamlegast leyfi til að viðra skoðanir sínar á 4 - 6 ára fresti (Ísland - Rússland). Oftar en ekki fá Íslendingar yfir sig allt aðra stjórn en þeir eru að kjósa.

Virkt lýðræði byggir hins vegar á því að fólkið getur tekið þátt í mótun stjórnarstefnunnar með inngripum (kosningum) þegar þurfa þykir og nauðsyn krefur. Að mínu viti er fulltrúalýðræðið gengið sér til húðar og þörf á að taka upp alvöru lýðræði - virkt lýðræði. Það felur svo í sér að stjórnmálaflokkar daga uppi eins og risaeðlur og fólkið skipar sér í hópa eftir málefnum hverju sinni - með og á móti.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband