Enn um staðfestingu sambúðar samkynhneigðra

Í gær varpaði ég fram þeirri spurningu á spjallsíðu minni, hvort einhvert trúarsamfélag hefði farið fram á, að fá að staðfesta sambúð samkynhneigðra.  Spurningin var sett fram vegna samþykktar landsfundar Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi.

All nokkur viðbrögð hafa orðið við þessari spurningu minni og er ég þakklátur fyrir þau, enda þótt þau svari ekki spurningu minni.  En það er nú svo, að þegar maður veltir snjóbolta niður fjallshlíð, veit maður svo sem harla lítið um það, hvar hann lendir.

Hvað varðar sambúð samkynhneigðra, þá er ég fylgjandi því, að þeir njóti, sambúðarinnar vegna, sömu réttinda og gagnkynhneigt fólk í sambúð eða hjónabandi, þ.e.a.s. erfðarréttinda, lífeyrisréttinda o.s.frv.  Hins vegar er mér ekki kunnugt um, að nokkurt trúarsamfélag, kristið, gyðinglegt, múslímst eða af nokkrum öðrum toga, hafi í sínu „ritúali" einhvert það form, sem gilt geti til staðfestingar á sambúð samkynhneigðra.  T.d. er hjónaband eitt af sjö sakramentum kaþólskra og sem slík heilagt og þar af leiðandi af trúarlegum rótum.  Og hér er vissulega átt við hjónaband fólks af gagnstæðu kyni. 

Viðar Eggertsson er einn þeirra, sem leggja orð í belg vegna spurningar minnar.  Hann segir m.a.  „Löggilding hjónabands gagnkynhneigðra sem samkynhneigðra á ekki að vera í höndum trúfélaga.  Þetta er lögformlegur gjörningur sem á að vera framkvæmdur af til þess bærum lögaðilum, t.d. sýslumönnum.  Síðan mega kirkjudeildir ráða (og rífast um) hvort þær blessi hjónabönd fólks í sínum söfnuði."

Enda þótt ég geti ekki alveg skrifað undir þetta, þá hygg ég, að þarna sé lausnin fundin, með nokkurri breytingu þó; þeir sem vilja ganga í hjónaband á trúarlegum forsendum gera það, hver svo sem trúarbrögð þeirra eru.  Hinir, sem ekki vilja ganga í hjónaband á trúarlegum forsendum, heldur veraldlegum, þeir geri það. Og hafa reyndar löngum gert.  En stjórnmálamenn geta ekki „veitt" trúarsamfélögum einhvern rétt, sem þau hafa aldrei farið fram á.  Það getur tæpast talist flókið mál. 

Að lokum má hafa það í huga, að enda þótt kirkjan eða aðrar trúarstofnanir geti ekki lagt blessun sína yfir allt það, sem fólk tekur sér fyrir hendur, þá getur hún blessað fólkið sjálft.  Okkur, sem viljum þjóna kirkjunni, eða öðrum trúarsamfélögum, ber því, að virða skoðanir annarra, rétt eins og við hljótum að æskja þess, að þeir virði skoðanir okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ásatrúarfélagið og Fríkirkjan hafa alla vega farið fram á þetta er mér sagt.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 16.4.2007 kl. 23:17

2 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Jæja, loksins fékk ég svar við spurningu minni, þótt ekki sé það alveg afgerandi.  En þakka þér samt fyrir.

Hafi Ásatrúarmenn farið fram á réttindi til að vígja sambúð samkynhneigðra, þá hlýtur ríkisvaldið að fallast á það. En þetta með „Fríkirkjuna", sem þú kallar svo og notar ákveðin greini, er svolítið flóknara. Mér vitanlega er nefnilega ekki til neitt, sem heitir Fríkirkja, heldur nokkrir fríkirkjusöfnuðir, sem hver um sig er sjálfstæð eining, ólíkt þjóðkirkjusöfnuðum. Hins vegar eru fríkirkjusöfnuðirnir allir evangelísk-lúterskir. Þess vegna hljóta þeir, að taka afstöðu til staðfestingar sambúðar samkynhneigðra í samræmi við afstöðu heildar trúarsamfélags evangelísk-lúterskra manna. Eða hvað?

Pjetur Hafstein Lárusson, 16.4.2007 kl. 23:43

3 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ég hefði kannski átt að segja Fríkirkjusöfnuðurinn Samkynhneigðir geta fengið að gifta sig í Fríkirkju(nni)söfnuðinum skilst mér. Ég get bara alls ekki skilið af hverju samkynhneigðir geti ekki gift sig í Þjóðkirkjunni og í öllum kirkjum þess vegna ef þeir vilja. Ég sjálf er ekki hlynnt giftingum svona yfir höfuð en skil að margir séu það. Þótt ég sé ekki hlynnt giftingum tala ég ekki gegn þeim. Annars er ég með nýjan pistil á blogginu mínu sem ber yfirskriftina "Sagði bless við Þjóðkirkjuna". Þú ættir kannski að kíkja á hann og segja mér hvað þér finnst

Margrét St Hafsteinsdóttir, 17.4.2007 kl. 00:10

4 identicon

Mér finnst það svosem ekki vera aðalatriði hvort eitthvað trúfélag hefur óskað eftir heimild eða ekki. Aðalatriðið hérna er að það er bannað en með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi ætti það ekki að vera bannað heldur öllum trúfélögum heimilt og þau tækju sjálf ákvörðun um það hvort þau nýttu sér þessa heimild eða ekki.

Til þess þó að svara spurningu þinni þá hefur prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík hefur farið fram á leyfi til þess að gefa saman samkynhneigða en getur ekki eins og lögin eru í dag. Þegar hugmyndir komu upp um að leyfa trúfélögum að gefa saman samkynhneigða í hjónaband þegar verið var að semja lög um bætta réttarstöðu samkynhneigra sem tóku í gildi 27. júní  2006 - aftók þjóðkirkjan það með öllu og var því engu trúfélagi gefið til þess leyfi. Ekki var talið heilladrjúgt að neyða ríkiskirkjuna til þess að virða jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en að sama skapi var engu öðru trúfélagi veitt til þess heimild sem þau voru þó búin að óska eftir.

Fríkikjuprestur, þjóðkirkjuprestur á Akureyri og fjölmargir aðrir prestar þjóðkirkjunnar hafa beðið um lagaheimild til þess að gefa samkynhneigða saman í hjónaband. Þeir hafa þá heimild ekki í dag en hafa verið að blessa samvist samkynhneigðra - sem þurfa alltaf að fara til sýslumanns og láta hann performera lagagjörninginn.

Kveðja
Katrín

Katrín (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband