Yfirveguð kosningabarátta?

Kosningabaráttan fer rólega af stað og það svo, að jafnvel má gera sér vonir um, að hún verði með yfirveguðum hætti.  Skoðanakannanir benda til, að enda þótt sex flokkar séu í framboði, séu aðeins þrír þeirra raunverulegir valkostir; Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri grænir og Samfylkingin.

Eftir því sem ég heyri á fólki, virðast flestir óska eftir samsteypustjórn Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna.  Samfylkingin hefur ekki verið með í myndinni vegna áralangs stefnuleysis og hringlandaháttar í ýmsum veigamiklum málum.  Nú hefur hún hins vegar gefið út rit um stefnu sína í efnahagsmálum, sem óneitanlega gæti breytt þessari stöðu.

Hvað sem því líður virðist það runnið upp fyrir flestum, að eigi að forða þjóðinni frá stórfelldum skakkaföllum í efnahagsmálum, verði að draga úr þenslunni, sem stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar hefur í för með sér.  Þessa stóriðjustefnu skrifa menn á reikning maddömu Framsóknar og þess geldur hún nú.  Það er einfaldlega of seint, að skipta út karlinum í brúnni, eftir að dallurinn hefur steytt á skeri.  Frá og með næstu kosningum mun framsóknarmaddaman að öllum líkindum skoppa um öldur úthafsins á gúmmíbjörgunarbáti.  Og eins og menn vita, er neyðarblysum lítill gaumur gefinn í pólitíkinni.

Reyndar er ofþenslan ekki aðeins stjórnmálamönnum að kenna, þótt þeirra sök sé vissulega mest. Því miður sannast nú hið fornkveðna, að eftir höfðinu dansa limirnir.  Sannleikurinn er sá, að stór hluti almennings hefur tekið fullan þátt í sukkinu.  Það þarf ekki annað en virða fyrir sér glæsijeppaeign landans, sem í raun er að mestu keypt fyrir lánsfé.  Hvað er svona skemmtilegt við það, að rúnta um á jeppa, sem maður á lítið sem ekkert í?

Það eru því ekki aðeins stjórnmálamennirnir, sem verða að taka sig taki eftir kosningar, heldur við öll.  Því fer best á því, að flokkarnir þrír, sem máli skipta, fari sér hægt í kosningabaráttunni; ólíklegustu flokkar gætu þurft að snúa bökum saman við ríkisstjórnarmyndun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að "stóriðjustefnan" hafi hlutfallslega lítil áhrif á þá þenslu sem fyrir er. Þensluna megi að meginhluta rekja til íbúðamarkaðar á höfuðborgarsvæðinu, með auknum lánveitingum frá Íbúðalánasjóði og bönkum sér í lagi. Síðan eins og þú nefnir með einkaneyslu almennings, sem að miklum hluta er fjármögnuð af lánum. Þar hafa bankarnir leikið stórt hlutverk með t.d. sumarhúsalánum, bílalánum, málverkalánum o.fl.

Þegar hægir á þenslu lánamarkaðar, munu álfyrirtækin aftur á móti hafa góð áhrif vegna aukins útflutnings og styrkingu við aðra stoðstarfsemi. Því eins og gefur að skilja er þetta svokallaða góðæri fjármagnað af lánum með hreint ofboðslegum viðskiptahalla. Ríkisstjórnin spilar ekki meginrullu í því heldur einkaneyslan og íbúðamarkaður á höfuðborgarsvæðinu.

En hvers vegna skrifarðu "stóriðjustefnuna" á framsóknarflokk? Sjálfstæðismenn hafa miklu fremur stutt þessa stefnu. En staðreyndin er hinsvegar sú að það er engin eiginleg stóriðjustefna, ja frekar en neyslustefna eða lánastefna.

VG hefur skýra stefnu, eða þeir segja það. Samt skulum við vona að þeir fari ekki í stjórn, því lítinn sem engan skilning hafa þeir á atvinnumálum né efnahagsmálum.

kveðja Gísli

Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 17:10

2 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Þakka þér fyrir athugasemdina.

Auðvitað deilir Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgðinni á stóriðjustefnunni með Framsóknarflokknum. Það breytir ekki því að vaxandi andstaða almennings við þessa stefnu bitnar fyrst og fremst á Framsóknarflokknum. Skoðanakannanir sýna það svo ekki verður um villst.

Framsóknarmenn eiga við sama vanda að glíma og kratar í kosningunum 1971 þegar þeir höfðu setið í Viðreisnarstjórninni með Sjálfstæðisflokknum í 12 ár. Almenningur hefur heldur ekki gleymt því hvernig opinberum fyrirtækjum, s.s. bönkum og Landssímanum, hefur verið bróðurlega skipt milli vildarvina stjórnarflokkanna. 

Hvers vegna sleppur Sjálfstæðisflokkurinn betur undan þessum dómi fólks heldur en Framsóknarflokkurinn? Í því sambandi mættu Framsóknarmenn fletta spjöldum sögunnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð verið auðvaldsflokkur meðan Framsóknarflokkurinn á rætur sínar í samvinnuhreyfingu bænda. Þarf einhvern að undra að hamskipti flokksins þessi síðustu ár vekji andstöðu fólks sem áður studdi hann dyggilega?  

Pjetur Hafstein Lárusson, 12.4.2007 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband