Myrkramáltíð í Blindrafélagshúsinu

Í dag varð ég fyrir merkilegri lífsreynslu.  Vinkona okkar hjóna, en hún er blind, bauð okkur til málsverðar í húsi Blindrafélagsins Hamrahlíð 17, Reykjavík.  Rétturinn var að vísu ekki frábrugðin því, sem gengur og gerist, lambalæri og hefðbundið meðlæti.  Það merkilega við málsverðinn var, að matsalurinn var myrkvaður.  Það var því borðað í svarta myrkri.

 Nú er það svo, að þessi ágæta vinkona okkar hjóna hefur oft boðið okkur í mat heima hjá sér og við henni á okkar heimili.  Sjálfsöryggi hennar, viljafesta og æfing, gerir það að verkum, að stundum gleymi ég þeirri staðreynd, að hún er blind.  Ég treysti henni því fullkomlega, allt frá því hún leiddi okkur til sætis, og þar til borðhaldi lauk.  Upplifun mín af þessari tímabundnu „blindu" var því ekki eins sterk, eins og verið hefði án nærveru hennar.  Samt sem áður var þetta eftirminnileg stund.  Ég hafði t.d. ekki leitt hugann að því, hvað það er óþægilegt, að borða, án þess að vita nákvæmlega, hvaða meðlæti er á disknum, að nú ekki sét talað um, hvar á disknum það sé.

Eins og flestum öðrum, finnst mér gott að hafa grænar baunir og rauðkál með lambalæri, já og auðvitað sósu og kartöflur.  Þetta var allt til reiðu í dag.  En hvað voru margar kartöflur á disknum mínum í dag?  Voru baunirnar ljósgrænar eða dökkgrænar?  Var vökvi með rauðkálinu?  Beytti ég hnífnum rétt? Voru kjötbitarnir feitir eða magrir? Var ég með stóran eða lítinn kartöflubita á gaflinum? Eða var e.t.v. ekkert á honum? Ég veit það ekki.  En nú veit ég, að málsverður á sér sjónrænar hliðar, sem ég fékk ekki notið í dag. 

Fjarri sé mér, að halda því fram, að ég hafi fengið marktæka reynslu af aðstæðum blindra.  Það var jú nokkuð ljóst mál, að ég mundi sjá aftur, um leið og ég kom út úr salnum.  Um þetta er óþarft að fjölyrða.

 „Blindrakaffi", eins og þetta framtak er kallað, er rekið af Ungblind, sem er deild ungs fólks innan Blindrafélagsins.  Opið er alla virka daga frá klukkan 11.00 til klukkan 15.00.  Á laugardögum er opið frá klukkan 12.00 til klukkan 16.00, en þá er ekki boðið upp á mat, eins og hina dagana.  Ég hvet alla til að mæta, það verður enginn svikinn af því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband